Yfirvöld í Sádi-Arabíu segjast hafa komið upp um ráðagerð al-Kaída um að ráðast á olíu- og herstöðvar í landinu. Lögreglan handtók 172, þar á meðal menn sem voru í þjálfun til þess að gerast sjálfsmorðsflugmenn. Þá lagði lögreglan hald á fjölvörg vopn og meira en 340 milljónir íslenskra króna.
Yfirlýsing þessa efnis var flutt á ríkissjónvarpsstöðinni Al-Ekhbaria í dag. Í henni sagði ennfremur „Sumir höfðu hafið þjálfun í meðferð vopna og aðrir höfðu verið sendir erlendis í flugnám svo þeir gætu framið hryðjuverkárásir í konungsríkinu." Innanríkisráðuneytið sagði jafnframt að þeir handteknu hefðu lagt á ráðin um sjálfsmorðsárásir gegn opinberum aðilum.
Flestir hinna 19 al-Kaída liða sem rændu flugvélunum í árásunum í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 voru frá Sádi-Arabíu.
Árið 2003 hófu herskáir múslimar, sem aðhyllast hugmyndafræði al-Kaída, aðgerðir gegn konungdæminu í Sádi-Arabíu. Þeir ætla sér að velta konungsfjölskyldunni af stóli.
Alls gerði lögreglan áhlaup á sjö staði og á sjónvarpsmyndum sást hún leggja hald á handsprengjur, sjálfvirka riffla, tölvur og fúlgur fjár.
Fréttavefur Al-Jazeera skýrði frá þessu í dag.
