Samningar um varnarsamstarf Íslendinga við Dani og Norðmenn verða undirritaðir á fimmtudaginn á NATO fundi í Ósló. Ekki fæst gefið upp hvað felst í þeim fyrr en eftir undirritun. Samkvæmt norska blaðinu Aftonposten felur samkomulagið við Norðmenn það í sér að norski flughersinn sjái um eftirlit í lofthelgi Íslands á friðartímum.
Viðræður við Norðmenn og Dani um samstarf í varnarmálum á Norður-Atlantshafi hafa staðið síðan í fyrra. Norsk sendinefnd skoðaði varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli í desember og það hefur dönsk nefnd einnig gert. Íslendingar hafa einnig rætt við Breta og Kanadamenn um samstarf og Atlantshafsbandalagið sjálft boðað eftirlitsflug.
Fjallað er ítarlega um væntanlegt varnar- og öryggissamstarf Íslands og Noregs í norska dagblaðinu Aftenposten í dag en fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá samkomulaginu við Norðmenn í gær. Í Aftenposten í dag segir að Íslendingar hafi verið varnarlausir frá því að Bandaríkjamenn hafi lokað herstöð sinni á Miðnesheiði. Því hafi Íslendingar leitað til Norðmanna og Dana um samstarf í varnarmálum. Blaðið segir að samkvæmt fyrirhuguðu varnar- og öryggissamstarfi landanna muni norskar herþotur sjá um eftirlit í lofthelgi Íslands á friðartímum. Þoturnar muni gera út frá Keflavík en í þessu felist þó engin skuldbinding af hálfu Noregs ef til ófriðar kemur. Hægt sé að ímynda sér að norski herinn muni auknum mæli taka þátt í heræfingum hér á landi í samstarfi við aðrar þjóðir. Greinarhöfundur segir að með þessu framlagi sé Noregur að hjálpa Íslendingum að viðhalda sjálfstæði sínu.
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna koma saman til óformlegs fundar í Ósló í Noregi á fimmtudag og föstudag til að ræða verkefni bandalagsins í Afganistan og Kósóvó. Á fimmtudeginum fundar Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, annars vegar með Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og hins vegar með Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana, og verður þá gegnið frá samningunum.