Fótbolti

Súrt tap hjá Real Madrid

Tveimur leikmönnum Real var vikið af leikvelli undir lok leiksins í kvöld þar sem allt var á suðupunkti á lokamínútunum
Tveimur leikmönnum Real var vikið af leikvelli undir lok leiksins í kvöld þar sem allt var á suðupunkti á lokamínútunum AFP

Real Madrid missti af tækifæri til að komast á topp spænsku deildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar liðið lá 2-1 á útivelli fyrir Racing Santander. Real hafði ekki tapað í 9 leikjum í röð, en eftir að Raul kom Madrid yfir í upphafi leiks, skoraði varnarmaðurinn Ezequiel Garay tvö mörk úr vítaspyrnum í síðari hálfleiknum.

Það voru varnarmistök Garay sem gáfu Real Madrid fyrsta markið, en hann bætti fyrir það með því að nýta vítaspyrnur sínar. Annað vítið var ansi vafasamt og þótti Real mönnum Lionel Scaloni hafa sýnt leikræna tilburði í teignum þegar hann fiskaði vítið.

Framherjinn Pedro Munits var einnig í sviðsljósinu hjá Santander, en Ivan Helguera fékk sitt annað gula spjald og var rekinn af velli fyrir að tækla hann í jörðina skömmu fyrir leikslok- og svo fékk vararmaðurinn Alvaro Meijia beint rautt fyrir aðra tæklingu á hann í uppbótartíma. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Real var svo varnarmaðurinn ungi Higuain borinn af velli þegar 15 mínútur voru eftir vegna alvarlegra ökklameiðsla.

Barcelona er í efsta sæti deildarinnar með 56 stig eftir 29 leiki, Sevilla hefur 55 stig eftir 29 leiki, Real Madrid 54 eftir 30 leiki og Zaragoze og Valencia hafa 50 stig eftir 29 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×