Lögreglan á Jamaíka rannsakar nú sviplegt fráfall þjálfara pakistanska landsliðsins í krikket sem grunsamlegt dauðsfall. Hún hefur lokið við að yfirheyra alla liðsmenn pakistanska krikketlandsliðsins og eru þeir nú frjálsir ferða sinna. Enginn er grunaður í málinu enn sem komið er.
Bob Woolmer, sem var þjálfari Pakistan á heimsmeistaramótinu í krikket sem nú fer fram á Jamaíka, lést eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á hótelherbergi sínu kvöldið eftir óvænt tap Pakistan í keppninni.
Miklar væntingar voru gerðar til liðsins fyrir keppnina en allt kom fyrir ekki. Liðið komst ekki einu sinni upp úr riðlakeppninni og gríðarleg mótmæli voru í Pakistan og myndir af þjálfaranum og leikmönnum voru meðal annars brenndar á götum úti.
