Dómstóll í Vínarborg mun í dag hefja rannsókn á því hvort móðir Austurrísku stúlkunnar Natösju Kampusch hafi átt þátt í ráni hennar. Natösju var rænt þegar hún var á leið í skólann árið 1998 og var í haldi ræningjans í átta ár. Henni tókst loks að flýja síðastliðið sumar, þá orðin nítján ára gömul. Ræningi hennar framdi þá sjálfsmorð.
Rannsókn á hugsanlegum þætti móðurinnar í ráninu er hafin fyrir tilstuðlan Martins Wabl, fyrrverandi dómara og forsetaframbjóðanda í Austurríki. Hann hefur frá upphafi haldið því fram að Brigitte Sirny hafi átt þátt í ráni dóttur sinnar.
Meðal vitna sem kölluð verða fyrir rannsóknarnefndina er nágrannakona sem segist hafa séð móðurina í fylgd með mannræningjanum. Annað vitni er fyrrverandi lögreglustjóri Vínarborgar sem segir að hann hafi séð myndir af Natösju í kynferðislegum stellingum, í myndaalbúmi fjölskyldunnar. Þær myndir voru teknar áður en stúlkunni var rænt. Brigitte Sirny hefur alltaf neitað sök.