Framhaldssagan Einar Már Jónsson skrifar 24. október 2007 00:01 Að undanförnu hefur dunið yfir Frakka framhaldssaga, sem ég hygg þó að enginn hafi óskað eftir; það er sagan um hjónabandsmál forsetans, sem nú virðist lokið að sinni með skilnaði, hvert sem áframhaldið kann að verða. Þetta er í rauninni nýjung. Hingað til hefur það nefnilega verið blýföst regla franskra fréttamanna og annarra fjölmiðlamanna - og að þessu leyti eru þeir gerólíkir starfsbræðrum sínum handan Ermarsunds - að fjalla aldrei um neitt það sem varðar einkalíf stjórnmálamanna. Þeir vita kannske sitt af hverju, og alls kyns orðrómur getur gengið fjöllunum hærra, en um það sést ekki stafur í neinum blöðum, né annars staðar. Öllum fréttamönnum mun hafa verið fullkunnugt um kvennamál Mitterrands forseta, en þeir gættu fyllstu þagmælsku. Svo gerðist það að forsetinn ákvað sjálfur að leiða laundóttur sína fram í ljósið með pomp og pragt. Og þá var kátt í höllinni. Þetta þótti svo fjarskalega elegant, menn leystu frá skjóðunni hver sem betur gat og sungu tvíkvænismanninum í forsetastól lof og prís, meðan myndasmiðir munduðu sín þing. Ástæðunnar til þess að Nikulás Sarkozy fær aðra meðhöndlun í fjölmiðlum er hvergi að leita nema til hans sjálfs. Eins og fréttamenn hafa bent á, ákvað hann að heyja sína stjórnmálabaráttu upp á amerískan móð, með því að hafa fjölskylduna í sviðsljósinu með sér. Jafnan þegar hann kom fram, hélt ræðu og slíkt, sat hin glæsta Sesselja Sarkozy einhvers staðar í grenndinni, og fallegi litli drengurinn, sonur þeirra, var að leika sér, sífellt myndefni fyrir sjónvarpsmenn. Hann uppdubbaði Sesselju sem sérlegan „ráðgjafa" sinn, í því hlutverki hafði hún skrifstofu við hliðina á hans eigin salarkynnum þegar hann var ráðherra, hann gerði hana að „sérlegum sendimanni" sínum og sendi hana til Libýu eins og frelsandi engil til að leysa búlgörsku hjúkrunarkonurnar úr haldi. Sagt er að ýmsir ráðgjafar Sarkozys sem vissu sínu viti, hafi bent honum á að það væri ekki varlegt fyrir hann að hafa spúsu sína svo mjög í sviðsljósinu, hann skyldi fara að með meiri hófsemd, en það var víst engu tauti við hann komið. Hjá því varð þess vegna ekki komist að það yrði líka fjölmiðlamál, þegar snurða hljóp á þráðinn, og Sesselja stakk af til New York með einhverjum elskhuga. Blaðamenn voru líka tilbúnir til að taka eftir því, þegar hún hvarf af sjónarsviðinu um lengri eða skemmri tíma, og þeir hnýstust í kjörgögn í bænum Neuilly þar sem þau hjón voru á kjörskrá, en þar mátti lesa að Sesselja hefði ekki greitt atkvæði í seinni umferð forsetakosninganna, og þar af leiðandi ekki kosið mann sinn. Sarkozy reyndi að stemma stigu við þessum fréttaflutningi, en fékk ekki að gert. Síðan hófst hið langdregna skilnaðarmál og blaðamenn skýrðu frá öllum þeim orðrómi sem í gangi var. Þetta eru mikil umskipti, en þýðir þetta eingöngu að Frakkar séu að taka upp einhverja bandaríska siði? Í tæpa hálfa öld hafa þeir búið við fremur undarlegt stjórnarfar. Það má segja að fyrst á sjö ára fresti og nú á fimm ára fresti kjósi þeir e.k. „konung", þ.e.a.s mann sem hefur öll völd og alla þræði í hendi sér (nema þegar kjósendur gera honum þá skráveifu að senda andstæðinga hans í meirihluta inn á þing, þá er hann valdalaus): hann nefnir forsætisráðherra eftir geðþótta, og gjarnan aðra ráðherra líka, og hann setur þá af þegar honum býður svo við að horfa. Það er ekkert mótvægi til. Því er ekki undarlegt þótt Frakklandsforsetar hafi verið veikir fyrir þeirri freistingu að haga sér í rauninni eins og einvaldskonungar. Þannig breiddi Giscard d'Estaing forseti út þann (ranga) orðróm, að hann væri afkomandi Lúðvíks 15., og í samræmi við það tók hann upp borðsiði konunga í forsetahöllinni. Nú eru Frakklandskonungar fyrri alda frægir fyrir margt, en eitt sem er ofarlega á baugi um suma þeirra í sögunni eru einmitt kvennamálin, flókin og fjölskrúðug. Með því að taka upp konunglega siði á því sviði og gera það heyrum kunnugt reið Mitterrand á vaðið, og Nikulás Sarkozy heldur áfram á þeirri braut með því að vera í fjölmiðlum fyrir hjónabandsmál. Þá er rétt að líta á tímasetninguna. Þetta skilnaðarmál var búið að vera lengi á dagskrá og menn bjuggust við tilkynningunni dag eftir dag. Svo kom hún loks fimmtudaginn 18. október. Hvers vegna þá? Jú, þann dag voru umfangsmikil verkföll í öllu samgöngukerfi landsins vegna mótmæla gegn samskonar áætlun um breytingar á eftirlaunum og þeirri sem hratt af stað verkföllunum í vetrarbyrjun 1995 og varð þáverandi stjórn að falli. Landið var nánast því lamað. En með því að gefa út tilkynninguna var tryggt að þetta yrði ekki aðalfréttin í fjölmiðlum, skilnaðurinn ýtti henni til hliðar og þandi sig yfir forsíðurnar. Það var eins og ekkert hefði gerst í þjóðardjúpinu. Að vissu leyti var þetta líka tilgangurinn með prjáli konunga á fyrri tímum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Fastir pennar Mest lesið Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Hvenær á að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur? Ögmundur Jónasson Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Að sjá ekki gjöf þjóðar fyrir græðgi Yngvi Sighvatsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun
Að undanförnu hefur dunið yfir Frakka framhaldssaga, sem ég hygg þó að enginn hafi óskað eftir; það er sagan um hjónabandsmál forsetans, sem nú virðist lokið að sinni með skilnaði, hvert sem áframhaldið kann að verða. Þetta er í rauninni nýjung. Hingað til hefur það nefnilega verið blýföst regla franskra fréttamanna og annarra fjölmiðlamanna - og að þessu leyti eru þeir gerólíkir starfsbræðrum sínum handan Ermarsunds - að fjalla aldrei um neitt það sem varðar einkalíf stjórnmálamanna. Þeir vita kannske sitt af hverju, og alls kyns orðrómur getur gengið fjöllunum hærra, en um það sést ekki stafur í neinum blöðum, né annars staðar. Öllum fréttamönnum mun hafa verið fullkunnugt um kvennamál Mitterrands forseta, en þeir gættu fyllstu þagmælsku. Svo gerðist það að forsetinn ákvað sjálfur að leiða laundóttur sína fram í ljósið með pomp og pragt. Og þá var kátt í höllinni. Þetta þótti svo fjarskalega elegant, menn leystu frá skjóðunni hver sem betur gat og sungu tvíkvænismanninum í forsetastól lof og prís, meðan myndasmiðir munduðu sín þing. Ástæðunnar til þess að Nikulás Sarkozy fær aðra meðhöndlun í fjölmiðlum er hvergi að leita nema til hans sjálfs. Eins og fréttamenn hafa bent á, ákvað hann að heyja sína stjórnmálabaráttu upp á amerískan móð, með því að hafa fjölskylduna í sviðsljósinu með sér. Jafnan þegar hann kom fram, hélt ræðu og slíkt, sat hin glæsta Sesselja Sarkozy einhvers staðar í grenndinni, og fallegi litli drengurinn, sonur þeirra, var að leika sér, sífellt myndefni fyrir sjónvarpsmenn. Hann uppdubbaði Sesselju sem sérlegan „ráðgjafa" sinn, í því hlutverki hafði hún skrifstofu við hliðina á hans eigin salarkynnum þegar hann var ráðherra, hann gerði hana að „sérlegum sendimanni" sínum og sendi hana til Libýu eins og frelsandi engil til að leysa búlgörsku hjúkrunarkonurnar úr haldi. Sagt er að ýmsir ráðgjafar Sarkozys sem vissu sínu viti, hafi bent honum á að það væri ekki varlegt fyrir hann að hafa spúsu sína svo mjög í sviðsljósinu, hann skyldi fara að með meiri hófsemd, en það var víst engu tauti við hann komið. Hjá því varð þess vegna ekki komist að það yrði líka fjölmiðlamál, þegar snurða hljóp á þráðinn, og Sesselja stakk af til New York með einhverjum elskhuga. Blaðamenn voru líka tilbúnir til að taka eftir því, þegar hún hvarf af sjónarsviðinu um lengri eða skemmri tíma, og þeir hnýstust í kjörgögn í bænum Neuilly þar sem þau hjón voru á kjörskrá, en þar mátti lesa að Sesselja hefði ekki greitt atkvæði í seinni umferð forsetakosninganna, og þar af leiðandi ekki kosið mann sinn. Sarkozy reyndi að stemma stigu við þessum fréttaflutningi, en fékk ekki að gert. Síðan hófst hið langdregna skilnaðarmál og blaðamenn skýrðu frá öllum þeim orðrómi sem í gangi var. Þetta eru mikil umskipti, en þýðir þetta eingöngu að Frakkar séu að taka upp einhverja bandaríska siði? Í tæpa hálfa öld hafa þeir búið við fremur undarlegt stjórnarfar. Það má segja að fyrst á sjö ára fresti og nú á fimm ára fresti kjósi þeir e.k. „konung", þ.e.a.s mann sem hefur öll völd og alla þræði í hendi sér (nema þegar kjósendur gera honum þá skráveifu að senda andstæðinga hans í meirihluta inn á þing, þá er hann valdalaus): hann nefnir forsætisráðherra eftir geðþótta, og gjarnan aðra ráðherra líka, og hann setur þá af þegar honum býður svo við að horfa. Það er ekkert mótvægi til. Því er ekki undarlegt þótt Frakklandsforsetar hafi verið veikir fyrir þeirri freistingu að haga sér í rauninni eins og einvaldskonungar. Þannig breiddi Giscard d'Estaing forseti út þann (ranga) orðróm, að hann væri afkomandi Lúðvíks 15., og í samræmi við það tók hann upp borðsiði konunga í forsetahöllinni. Nú eru Frakklandskonungar fyrri alda frægir fyrir margt, en eitt sem er ofarlega á baugi um suma þeirra í sögunni eru einmitt kvennamálin, flókin og fjölskrúðug. Með því að taka upp konunglega siði á því sviði og gera það heyrum kunnugt reið Mitterrand á vaðið, og Nikulás Sarkozy heldur áfram á þeirri braut með því að vera í fjölmiðlum fyrir hjónabandsmál. Þá er rétt að líta á tímasetninguna. Þetta skilnaðarmál var búið að vera lengi á dagskrá og menn bjuggust við tilkynningunni dag eftir dag. Svo kom hún loks fimmtudaginn 18. október. Hvers vegna þá? Jú, þann dag voru umfangsmikil verkföll í öllu samgöngukerfi landsins vegna mótmæla gegn samskonar áætlun um breytingar á eftirlaunum og þeirri sem hratt af stað verkföllunum í vetrarbyrjun 1995 og varð þáverandi stjórn að falli. Landið var nánast því lamað. En með því að gefa út tilkynninguna var tryggt að þetta yrði ekki aðalfréttin í fjölmiðlum, skilnaðurinn ýtti henni til hliðar og þandi sig yfir forsíðurnar. Það var eins og ekkert hefði gerst í þjóðardjúpinu. Að vissu leyti var þetta líka tilgangurinn með prjáli konunga á fyrri tímum.
Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Við erum heit, græn og orkumikil – gerum kröfur um sjálfbærni, nýsköpun og betri nýtingu auðlinda! Halla Hrund Logadóttir ,Fida Abu Libdeh Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun