Klók viðskipti Jón Kaldal skrifar 7. október 2007 00:01 Klaufagangur, baktjaldamakk og græðgi í aðdraganda að samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy (GGE), hefur orðið til að skyggja á mikilvægasta grundvallarmálið að baki hinu sameinaða félagi. Að minnsta kosti þá hlið sem snýr að eigendum Orkuveitu Reykjavíkur, íbúum höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélögunum. Uppnámið yfir heimild útvalinna starfsmanna, ráðgjafa og fyrrverandi kosningastjóra til kaupa á hlutum í REI á sérkjörum á fyllilega rétt á sér. Sem og óánægja minnihlutans í borgarstjórn, og reyndar innan meirihlutans líka, yfir skömmum tíma og takmarkaðri upplýsingagjöf í tengslum við samruna félaganna. Sjálf hugmyndafræðin um að fyrirtæki í opinberri eigu freisti þess að koma í verð og ávaxta óefnisleg og óbókfærð verðmæti á borð við þekkingu, reynslu og tengsl, er hins vegar stóra viðfangsefnið. Og það verður að ræða þegar búið er að afgreiða gullæðið sem rann á einstaklinga innan Orkuveitunnar í tengslum við REI, og hefur orðið þeim til minnkunar. Í raun grundvallast þetta viðfangsefni í svörum Hannesar Smárasonar og Svandísar Svavarsdóttur í Fréttablaðinu í gær. Í bláa horni einkaframtaksins er Hannes: „Auðvitað hefði verið lítið mál fyrir Orkuveituna að sleppa þessu alveg og leyfa okkur hinum að dansa frjálsum, en þá er líka ljóst að minna hefði setið eftir." Og þar á Hannes við að Orkuveitan ætti ekki möguleika á að ávaxta fyrrnefnd óefnisleg verðmæti sín án þátttöku í REI. Í hinu horninu, því rauða, situr Svandís og segir: „Það er ekkert annað sem býr að aðkomu þessara manna en að græða sem allra mest á sem allra skemmstum tíma. Það fer illa saman við hugmyndir og tilgang opinberra fyrirtækja." Þetta er alveg rétt hjá Svandísi. En hinn kaldi veruleiki er aftur á móti sá að einkaframtakið er komið á flug í orkugeiranum og hefur í farangrinum hugmyndir um útrás þar sem þekking Íslendinga á virkjun jarðvarma leikur lykilhlutverk. Og það þarf sérlega hrekklausan einstakling til að halda að Hannes og félagar hefðu ekki einfaldlega keypt út úr Orkuveitu Reykjavíkur þá menn sem hafa einmitt mesta þekkingu og reynslu á því sviði. Má reyndar ganga út frá því sem vísu að raunsæisleg afstaða til þeirrar hættu hafi legið að baki stofnun REI. Með þeim gjörningi gerði Orkuveitan sig betur gildandi á útrásarsviðinu og dró úr líkum þess að þekking og reynsla þar innandyra hyrfi án greiðslu. Enda er það nú komið á daginn að títtnefndar óefnislegar eignir Orkuveitunnar eru komnar með verðmiða og hafa verið færðar til bókar á tíu milljarða við sameiningu REI og GGE. Þessa eign, sem var ekki einu sinni til fyrir viku, getur Orkuveitan því selt á morgun kæri hún sig um. Væntingar eru um að verðmæti REI tvö- til þrefaldist á næstu árum og má því ætla að skynsamlegt sé fyrir Orkuveituna að eiga sinn hlut áfram um hríð, þótt óhjákvæmilegt sé að hún selji á endanum. Miðað við núgildandi lagaumhverfi er ekki hægt að segja annað en að Orkuveitan hafi spilað geysilega vel úr sinni stöðu og að borgarstjóri hafi staðið af festu vörð um hagsmuni eigenda fyrirtækisins. Hann hefur á hinn bóginn gjörtapað hinu svokallaða ímyndarstríði, sem er ekki nýtt á stuttum ferli hans á stóli borgarstjóra. Og enn er ósvarað þeirri spurningu hvort frammistaða hans muni hafa enn alvarlegri afleiðingar fyrir hann innan eigin flokks. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Miðflokkurinn hefur lausnir á húsnæðismarkaði Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun
Klaufagangur, baktjaldamakk og græðgi í aðdraganda að samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy (GGE), hefur orðið til að skyggja á mikilvægasta grundvallarmálið að baki hinu sameinaða félagi. Að minnsta kosti þá hlið sem snýr að eigendum Orkuveitu Reykjavíkur, íbúum höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélögunum. Uppnámið yfir heimild útvalinna starfsmanna, ráðgjafa og fyrrverandi kosningastjóra til kaupa á hlutum í REI á sérkjörum á fyllilega rétt á sér. Sem og óánægja minnihlutans í borgarstjórn, og reyndar innan meirihlutans líka, yfir skömmum tíma og takmarkaðri upplýsingagjöf í tengslum við samruna félaganna. Sjálf hugmyndafræðin um að fyrirtæki í opinberri eigu freisti þess að koma í verð og ávaxta óefnisleg og óbókfærð verðmæti á borð við þekkingu, reynslu og tengsl, er hins vegar stóra viðfangsefnið. Og það verður að ræða þegar búið er að afgreiða gullæðið sem rann á einstaklinga innan Orkuveitunnar í tengslum við REI, og hefur orðið þeim til minnkunar. Í raun grundvallast þetta viðfangsefni í svörum Hannesar Smárasonar og Svandísar Svavarsdóttur í Fréttablaðinu í gær. Í bláa horni einkaframtaksins er Hannes: „Auðvitað hefði verið lítið mál fyrir Orkuveituna að sleppa þessu alveg og leyfa okkur hinum að dansa frjálsum, en þá er líka ljóst að minna hefði setið eftir." Og þar á Hannes við að Orkuveitan ætti ekki möguleika á að ávaxta fyrrnefnd óefnisleg verðmæti sín án þátttöku í REI. Í hinu horninu, því rauða, situr Svandís og segir: „Það er ekkert annað sem býr að aðkomu þessara manna en að græða sem allra mest á sem allra skemmstum tíma. Það fer illa saman við hugmyndir og tilgang opinberra fyrirtækja." Þetta er alveg rétt hjá Svandísi. En hinn kaldi veruleiki er aftur á móti sá að einkaframtakið er komið á flug í orkugeiranum og hefur í farangrinum hugmyndir um útrás þar sem þekking Íslendinga á virkjun jarðvarma leikur lykilhlutverk. Og það þarf sérlega hrekklausan einstakling til að halda að Hannes og félagar hefðu ekki einfaldlega keypt út úr Orkuveitu Reykjavíkur þá menn sem hafa einmitt mesta þekkingu og reynslu á því sviði. Má reyndar ganga út frá því sem vísu að raunsæisleg afstaða til þeirrar hættu hafi legið að baki stofnun REI. Með þeim gjörningi gerði Orkuveitan sig betur gildandi á útrásarsviðinu og dró úr líkum þess að þekking og reynsla þar innandyra hyrfi án greiðslu. Enda er það nú komið á daginn að títtnefndar óefnislegar eignir Orkuveitunnar eru komnar með verðmiða og hafa verið færðar til bókar á tíu milljarða við sameiningu REI og GGE. Þessa eign, sem var ekki einu sinni til fyrir viku, getur Orkuveitan því selt á morgun kæri hún sig um. Væntingar eru um að verðmæti REI tvö- til þrefaldist á næstu árum og má því ætla að skynsamlegt sé fyrir Orkuveituna að eiga sinn hlut áfram um hríð, þótt óhjákvæmilegt sé að hún selji á endanum. Miðað við núgildandi lagaumhverfi er ekki hægt að segja annað en að Orkuveitan hafi spilað geysilega vel úr sinni stöðu og að borgarstjóri hafi staðið af festu vörð um hagsmuni eigenda fyrirtækisins. Hann hefur á hinn bóginn gjörtapað hinu svokallaða ímyndarstríði, sem er ekki nýtt á stuttum ferli hans á stóli borgarstjóra. Og enn er ósvarað þeirri spurningu hvort frammistaða hans muni hafa enn alvarlegri afleiðingar fyrir hann innan eigin flokks.