Morðingjar og réttlæti 25. september 2007 00:01 Réttlæti er eitt fegursta hugtak tungumálsins. Það getur samt verið erfitt að festa reiður á merkingu þess. Sérstaklega þegar svívirðilegir og óafturkræfir glæpir eru framdir. Þegar ég var átta ára gömul greyptist frétt í huga mér. Hún sagði frá hrottalegu morði. Svo mikið varð mér um að enn man ég frásögnina nær orðrétta, hvar ég var stödd, hvað ég var að gera og hverjir voru í kringum mig. Réttlætiskennd barna er sterk en óþroskuð, ég er fegin að ekki er stuðst við slíkar tilfinningar þegar dæmt er í sakamálum. Frænda mínum og mér lenti saman fyrir skömmu eftir að við höfðum verið að ræða um dóma og réttlæti. Mér blöskraði að frænda mínum, sem ég hef ávallt talið góðan mann, virtist þykja eðlilegt að halda uppi vörnum fyrir menn sem hafa gerst sekir um svo viðurstyggilega og grimmilega hluti að ég get vart ímyndað mér þá. Viðhorf hans þóttu mér svo fáránleg að lengi á eftir henti ég gráglettnislegt gaman af því sem okkur hafði farið á milli. Í fyrradag heimsótti ég þennan sama frænda. Þegar ég gekk inn svipaðist ég tilgerðarlega í kringum mig og sagði hæðnislega: „Nú, alveg var ég viss um að þú hefðir smalað saman einhverjum úrhrökum til að sannfæra mig um gæsku þeirra." Frændinn hristi höfuðið yfir hótfyndni minni. Ég hafði þó rétt fyrir mér að einhverju leyti, skömmu síðar kom annar gestur. Ég heilsaði honum með handabandi og áttaði mig á því að þar var kominn maðurinn sem bar ábyrgð á glæpnum sem mér varð svo um að heyra af þegar ég var barn. Hann hafði afplánað dóm sinn, var aftur kominn út í samfélagið, var ekkert ólíkur öðrum þegnum þess, bar jafnvel af sér góðan þokka og var að vinna gott og þarft starf með föngum. Ég velti því fyrir mér hvort réttlætinu hefði verið fullnægt frekar ef hann væri hundeltur eða dauður. Slíkt viðhorf virðist vera mjög útbreitt ef marka má nokkrar af þeim umræðum sem fóru fram á spjallvefjum í gær. Réttlætinu verður ekkert frekar fullnægt þótt múgurinn hefji kyndla á loft og heimti refsingar að hætti Gamla testamentisins, heldur þegar sakamenn horfast í augu við glæpi sína og reyna að bæta fyrir þá. Sem betur fer virðast íslensk fangelsisyfirvöld vinna með það að markmiði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Karen Kjartansdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Réttlæti er eitt fegursta hugtak tungumálsins. Það getur samt verið erfitt að festa reiður á merkingu þess. Sérstaklega þegar svívirðilegir og óafturkræfir glæpir eru framdir. Þegar ég var átta ára gömul greyptist frétt í huga mér. Hún sagði frá hrottalegu morði. Svo mikið varð mér um að enn man ég frásögnina nær orðrétta, hvar ég var stödd, hvað ég var að gera og hverjir voru í kringum mig. Réttlætiskennd barna er sterk en óþroskuð, ég er fegin að ekki er stuðst við slíkar tilfinningar þegar dæmt er í sakamálum. Frænda mínum og mér lenti saman fyrir skömmu eftir að við höfðum verið að ræða um dóma og réttlæti. Mér blöskraði að frænda mínum, sem ég hef ávallt talið góðan mann, virtist þykja eðlilegt að halda uppi vörnum fyrir menn sem hafa gerst sekir um svo viðurstyggilega og grimmilega hluti að ég get vart ímyndað mér þá. Viðhorf hans þóttu mér svo fáránleg að lengi á eftir henti ég gráglettnislegt gaman af því sem okkur hafði farið á milli. Í fyrradag heimsótti ég þennan sama frænda. Þegar ég gekk inn svipaðist ég tilgerðarlega í kringum mig og sagði hæðnislega: „Nú, alveg var ég viss um að þú hefðir smalað saman einhverjum úrhrökum til að sannfæra mig um gæsku þeirra." Frændinn hristi höfuðið yfir hótfyndni minni. Ég hafði þó rétt fyrir mér að einhverju leyti, skömmu síðar kom annar gestur. Ég heilsaði honum með handabandi og áttaði mig á því að þar var kominn maðurinn sem bar ábyrgð á glæpnum sem mér varð svo um að heyra af þegar ég var barn. Hann hafði afplánað dóm sinn, var aftur kominn út í samfélagið, var ekkert ólíkur öðrum þegnum þess, bar jafnvel af sér góðan þokka og var að vinna gott og þarft starf með föngum. Ég velti því fyrir mér hvort réttlætinu hefði verið fullnægt frekar ef hann væri hundeltur eða dauður. Slíkt viðhorf virðist vera mjög útbreitt ef marka má nokkrar af þeim umræðum sem fóru fram á spjallvefjum í gær. Réttlætinu verður ekkert frekar fullnægt þótt múgurinn hefji kyndla á loft og heimti refsingar að hætti Gamla testamentisins, heldur þegar sakamenn horfast í augu við glæpi sína og reyna að bæta fyrir þá. Sem betur fer virðast íslensk fangelsisyfirvöld vinna með það að markmiði.