Króatísk kona er á batavegi eftir að hafa fengið eldingu í munninn, sem fór í gegn um líkama hennar og út um endaþarminn.
Að sögn netmiðilsins ananova. com var konan að bursta í sér tennurnar, við vatnshana utan dyra, þegar eldingunni sló niður. Hún segir að sársaukinn hafi verið ólýsanalegur meðan hún fann eldinguna fara í gegnum líkama sinn. Eftir það muni hún lítið.
Konan, sem er 27 ára gömul var flutt á sjúkrahús þar sem gert var að brunasárum á báðum endum. Læknar segja að þetta sé vissulega furðulegt atvik, en ekki ómögulegt.
Þeir segja að ástæðan fyrir því að eldingin fór ekki niður í fætur konunnar, og þaðan út, sé sú að hún hafi verið í gúmmísandölum. Því hafi eldingin fundið aðra útgönguleið. Ef hún hefði ekki verið í sandölunum hefði hún sjálfsagt látið lífið. Menn verða svo að nota eigið ímyndunarafl til þess að finna nýtt gælunafn á þessa konu.