Það er ekki laust við að spennan sé að verða óbærileg í Shanghai í Kína þar sem æfingar standa nú yfir fyrir Kínakappaksturinn í Formúlu 1 um helgina. Keppinautarnir um heimsmeistaratitil ökumanna, Fernando Alonso og Michael Schumacher, komu í mark á nánast nákvæmlega sama tíma í dag.
Heimsmeistarinn Alonso hefur nú aðeins tveggja stiga forskot á Schumacher í stigakeppninni til heimsmeistara, en Schumacher hefur enn ekki náð í eitt einasta stig í þeim tveim mótum sem haldin hafa verið í Kína til þessa.
Ferrari varð fyrir nokkru áfalli í dag þegar félagi Schumacher hjá Ferrari, Felipe Massa, þurfti að skipta um vél eftir að hafa náð besta tímanum á æfingu og þarf því að taka út tíu sæta refsingu í kappakstrinum um helgina.