Keppnislið Renault í Formúlu 1 tilkynnti í dag að finnski ökuþórinn Heikki Kovalainen muni leysa Spánverjann Fernando Alonso af hólmi sem aðalökumaður liðsins á næsta keppnistímabili þegar heimsmeistarinn gengur í raðir McLaren. Giancarlo Fisichella verður áfram ökumaður hjá liðinu, en hann framlengdi samning sinn um eitt ár á dögunum.
Þá ætlar liðsstjórinn Flavio Briatore að vera í tvö ár í viðbót, en hann hafði verið að íhuga að hætta. Kovalainen er 24 ára gamall og hefur verið reynsluökumaður liðsins undanfarið, en hann þykir mikið efni og fær því þetta stóra tækifæri á næsta ári.