Rökke, ég og Jóhann próki 14. nóvember 2005 22:59 Ná tali af Rökke, voru fyrirmælin sem fréttastjórinn gaf mér einn vetrardag 1997 þegar ég fór á eftir Ólafi Ragnari og Búbbu í fyrstu opinberu heimsókn þeirra til útlanda - til Noregs. Ég þvældist á eftir hjónunum í nokkra daga, rann dálítið til rifja hvað Ólafur var frakkalaus í kuldanum í Osló, fannst norska drottningin herpt á svipinn en kóngurinn sauðslegur; varð mér til skammar þegar ég þurfti að elta Ólaf upp á Holmenkollen klukkan fimm að morgni - hann gekk fimlega á gönguskíðum en ég rann um timbraður á blankskóm. En ná tali af Rökke, það var málið, sagði Páll Magnússon. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði gsm-síma í höndunum, reyndi að hringja nokkur símtöl en viðbrögðin voru ekki uppörvandi. Íslendingum fannst þetta áhugaverður maður vegna þess að hann byrjaði smátt í útgerð - gott ef hann hafði ekki gert út í Smuguna - en átti nú stærsta fiskveiðiskip í heimi. Var farinn að kaupa sig inn í gömul og settleg fyrirtæki, sum af þeim höfuðvígi norskra broddborgara - sem horfðu á með skelfingu. Svo var haldin veisla í Ráðhúsinu í Osló, í aðalsalnum þar. Ég var hafður ásamt nokkrum lágt settum Íslendingum á borði númer 26, það var ófínasta borðið í salnum. Ásamt okkur sat þarna Norðmaður með konu sinni. Hann lét lítið fyrir sér fara og við veittum honum ekki athygli - ég var helst á því að hann væri starfsmaður Oslo Kommune. Ég var ekki á því að gefast upp við að ná viðtalinu við Rökke. Sá á gestalista að honum hefði verið boðið í veisluna. Fór upp að háborðinu þar sem sat Eiður Guðnason sendiherra og spurði hvort hann hefði séð Rökke. Eiður þóttist vera viss um ekki. Ég lét gott heita. Til öryggis spurði ég samt framreiðslumanninn sem þjónaði okkur til borðs hvort hann hefði nokkuð komið auga á Rökke. Hann varð undrandi á svipinn, benti á manninn sem hafði setið við hliðina á mér allan tímann, starfsmann borgarinnar, og sagði - þarna er Rökke. Ég ætla svosem ekki að rekja það hvað okkur fór á milli. Við töluðum saman góða stund, mér fannst þetta geðslegur maður, en hann kærði sig ekki um viðtal. Það segir hins vegar mikið um stöðu hans að honum skyldi skipað til borðs með mér, langneðst í virðingarröðinni. Hann var á góðri leið með að verða ríkasti maður Noregs, billjóneri - var að brjóta sér leið inn í gömlu viðskiptablokkirnar. Það var ekki hægt að útiloka hann úr veislunni - en hann var nánast látinn matast með þjónustufólkinu. Því er ég að skrifa þetta að ég las í gær á vefnum Heimur.is að það væri illa komið fyrir hinum gamla borðfélaga mínum. "Flóamarkaðurinn hjá Rökke heldur áfram", stendur í fréttinni, og segir að hann sé að selja Lamborghini bifreið sína, lúxussnekkjuna, skemmtibátinn, einkaþotuna af gerðinni Boeing Business Jet og ýmislegt fleira. Kjell Inge Rökke var lesblindur sonur sjómanns sem hegða sér illa í skóla. Hann kallaði fram ofnæmisviðbrögð hjá elítunni í Noregi. Raunar fór hann í taugarnar á fleirum. Blaðamaður sem ég þekki sagðist ekki geta sofið því Rökke væri á spíttbáti út í Oslóarfirði - að minnsta kosti 5 kílómetra í burtu. Það hlakkar í mörgum að sjá veldi hans fara fyrir lítið. Ég sé á vefnum að ævisöguritari Rökkes telur að þrátt fyrir allt hafi hann lélega sjálfsmynd. Kannski var sjálfsmynd Jóns Ólafssonar heldur ekki alltof góð. Hann var bæjarhrekkjusvínið í Keflavík, naut lítillar skólagöngu, átti afar bágt með að koma fyrir sig orði og fékk ekki heldur að sitja við góðu borðin í veislum - þó hann reyndi mikið að troðast. Öskubuskuævintýri Jóns virðist líka vera á enda - allavega er eins og jörðin hafi gleypt hann. Þetta er svosem ekki ný saga. Snöggríkir menn sem hreykja sér hátt og falla eru sígilt söguefni. Nú ríkir þórðargleði í fjölmiðlunum yfir örlögum þeirra skjásbræðra, Árna og Kristjáns. Annar nýríkur maður, Björgólfur Björgólfsson, er sá sem þjóðin telur að skari mest fram úr öðrum Íslendingum um þessar mundir. Í túninu heima rekur Halldór Laxness söguna af Jóhanni próka. Þetta var Jón Ólafsson sinnar samtíðar, fátækur sonur skósmiðs sem efnaðist hratt á því að gefa út reyfara á borð við Kapítólu. Hann setti mikinn svip á þjóðlífið í stuttan tíma, hóf mikil fasteignaviðskipti og átti í deilum við kerfiskarla í stjórn Landsbankans. En það varð heldur brátt um Jóhann. Haustið 1914 deyr kona hans, hann tilkynnir að hann ætli að flytja af landi brott en fyrirfer sér svo snemma vetrar. Áður en hann dó hafði Jóhann próki stofnað sjóð sem átti að verða undirstaðan undir gamalmennahælið Ævikvöld sem skyldi vígjast 13. apríl 1973, á hundrað ára afmæli Sigurbjargar, konu Jóhanns. Á þeim tíma var talað um stórkostlegustu gjöf Íslandssögunnar og að Jóhann hefði reist sér óbrotgjarnan minnisvarða. En peningarnir hurfu og Ævikvöldið reis aldrei. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Ná tali af Rökke, voru fyrirmælin sem fréttastjórinn gaf mér einn vetrardag 1997 þegar ég fór á eftir Ólafi Ragnari og Búbbu í fyrstu opinberu heimsókn þeirra til útlanda - til Noregs. Ég þvældist á eftir hjónunum í nokkra daga, rann dálítið til rifja hvað Ólafur var frakkalaus í kuldanum í Osló, fannst norska drottningin herpt á svipinn en kóngurinn sauðslegur; varð mér til skammar þegar ég þurfti að elta Ólaf upp á Holmenkollen klukkan fimm að morgni - hann gekk fimlega á gönguskíðum en ég rann um timbraður á blankskóm. En ná tali af Rökke, það var málið, sagði Páll Magnússon. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði gsm-síma í höndunum, reyndi að hringja nokkur símtöl en viðbrögðin voru ekki uppörvandi. Íslendingum fannst þetta áhugaverður maður vegna þess að hann byrjaði smátt í útgerð - gott ef hann hafði ekki gert út í Smuguna - en átti nú stærsta fiskveiðiskip í heimi. Var farinn að kaupa sig inn í gömul og settleg fyrirtæki, sum af þeim höfuðvígi norskra broddborgara - sem horfðu á með skelfingu. Svo var haldin veisla í Ráðhúsinu í Osló, í aðalsalnum þar. Ég var hafður ásamt nokkrum lágt settum Íslendingum á borði númer 26, það var ófínasta borðið í salnum. Ásamt okkur sat þarna Norðmaður með konu sinni. Hann lét lítið fyrir sér fara og við veittum honum ekki athygli - ég var helst á því að hann væri starfsmaður Oslo Kommune. Ég var ekki á því að gefast upp við að ná viðtalinu við Rökke. Sá á gestalista að honum hefði verið boðið í veisluna. Fór upp að háborðinu þar sem sat Eiður Guðnason sendiherra og spurði hvort hann hefði séð Rökke. Eiður þóttist vera viss um ekki. Ég lét gott heita. Til öryggis spurði ég samt framreiðslumanninn sem þjónaði okkur til borðs hvort hann hefði nokkuð komið auga á Rökke. Hann varð undrandi á svipinn, benti á manninn sem hafði setið við hliðina á mér allan tímann, starfsmann borgarinnar, og sagði - þarna er Rökke. Ég ætla svosem ekki að rekja það hvað okkur fór á milli. Við töluðum saman góða stund, mér fannst þetta geðslegur maður, en hann kærði sig ekki um viðtal. Það segir hins vegar mikið um stöðu hans að honum skyldi skipað til borðs með mér, langneðst í virðingarröðinni. Hann var á góðri leið með að verða ríkasti maður Noregs, billjóneri - var að brjóta sér leið inn í gömlu viðskiptablokkirnar. Það var ekki hægt að útiloka hann úr veislunni - en hann var nánast látinn matast með þjónustufólkinu. Því er ég að skrifa þetta að ég las í gær á vefnum Heimur.is að það væri illa komið fyrir hinum gamla borðfélaga mínum. "Flóamarkaðurinn hjá Rökke heldur áfram", stendur í fréttinni, og segir að hann sé að selja Lamborghini bifreið sína, lúxussnekkjuna, skemmtibátinn, einkaþotuna af gerðinni Boeing Business Jet og ýmislegt fleira. Kjell Inge Rökke var lesblindur sonur sjómanns sem hegða sér illa í skóla. Hann kallaði fram ofnæmisviðbrögð hjá elítunni í Noregi. Raunar fór hann í taugarnar á fleirum. Blaðamaður sem ég þekki sagðist ekki geta sofið því Rökke væri á spíttbáti út í Oslóarfirði - að minnsta kosti 5 kílómetra í burtu. Það hlakkar í mörgum að sjá veldi hans fara fyrir lítið. Ég sé á vefnum að ævisöguritari Rökkes telur að þrátt fyrir allt hafi hann lélega sjálfsmynd. Kannski var sjálfsmynd Jóns Ólafssonar heldur ekki alltof góð. Hann var bæjarhrekkjusvínið í Keflavík, naut lítillar skólagöngu, átti afar bágt með að koma fyrir sig orði og fékk ekki heldur að sitja við góðu borðin í veislum - þó hann reyndi mikið að troðast. Öskubuskuævintýri Jóns virðist líka vera á enda - allavega er eins og jörðin hafi gleypt hann. Þetta er svosem ekki ný saga. Snöggríkir menn sem hreykja sér hátt og falla eru sígilt söguefni. Nú ríkir þórðargleði í fjölmiðlunum yfir örlögum þeirra skjásbræðra, Árna og Kristjáns. Annar nýríkur maður, Björgólfur Björgólfsson, er sá sem þjóðin telur að skari mest fram úr öðrum Íslendingum um þessar mundir. Í túninu heima rekur Halldór Laxness söguna af Jóhanni próka. Þetta var Jón Ólafsson sinnar samtíðar, fátækur sonur skósmiðs sem efnaðist hratt á því að gefa út reyfara á borð við Kapítólu. Hann setti mikinn svip á þjóðlífið í stuttan tíma, hóf mikil fasteignaviðskipti og átti í deilum við kerfiskarla í stjórn Landsbankans. En það varð heldur brátt um Jóhann. Haustið 1914 deyr kona hans, hann tilkynnir að hann ætli að flytja af landi brott en fyrirfer sér svo snemma vetrar. Áður en hann dó hafði Jóhann próki stofnað sjóð sem átti að verða undirstaðan undir gamalmennahælið Ævikvöld sem skyldi vígjast 13. apríl 1973, á hundrað ára afmæli Sigurbjargar, konu Jóhanns. Á þeim tíma var talað um stórkostlegustu gjöf Íslandssögunnar og að Jóhann hefði reist sér óbrotgjarnan minnisvarða. En peningarnir hurfu og Ævikvöldið reis aldrei.