Fylking á ferð 25. október 2004 00:01 Mæt og virt baráttukona, kennari og fyrrum borgarfulltrúi, Elín G. Ólafsdóttir, skrifaði grein hér á dögunum þar sem hún lagði út af ævintýrinu um Unga litla sem hélt að himinninn væri að hrynja og lét skolla ginna sig inn í greni sitt með fyrirsjáanlegum endalokum. Skilaboð Elínar til kennara eru: standið saman, trúið ekki fagurgala lágfótu, allt sanngjarnt fólk styður ykkur. Sjálfur er ég væntanlega ekki í hópi þeirra sanngjörnu: frá fyrsta degi hef ég látið í ljós þá skoðun mína – kannski full eindregið stundum - að réttur barna til skólagöngu sé æðri rétti kennara til verkfalls, nema um algjöra neyð sé að ræða, og þá í mesta lagi í nokkra daga. Það að kenna börnum er ekki sambærilegt við að pakka inn vöru eða flaka fisk: maður notar ekki stál og hníf við kennslu, svo að vísað sé til söngs kennara í Garðabæ á baráttusamkomu. Í kennslu eru í húfi verðmæti sem ekki verða mæld í krónum og aurum og eru þar með ósegjanlega miklu mikilvægari en til dæmis þegar verkfall sjómanna skellur á: líf og þroski ungra manneskja. Umræðan um verkfallið hefur of mikið snúist um hagsmuni þeirra fullorðnu: vandræði foreldranna (sem ég er þó ekki að gera lítið úr), lítið svigrúm sveitarfélaganna, væntingar kennaranna. Allt bliknar þetta hjá því að börn eru svipt skólagöngu sinni: hægt er að vinna upp peningaskort og redda hlutum en börnin geta ekki endurheimt þann tíma í skólanum sem þau hafa misst. Þeir dagar eru liðnir og koma aldrei aftur. Harkan í þessu verkfalli er of mikil og hefur skaðað orðspor merkrar stéttar. Sagt er að kennarar séu ekki of sælir af launum sínum (hver sem þau eru: það munar næstum hundrað þúsund krónum á upplýsingum um þau eftir því hver talar) – látum svo vera, vitaskuld eiga kennarar að fá gott kaup: en það eitt og sér er bara ekki nógu góð ástæða til að fara í verkfall gagnvart börnum í fimm vikur. Endastöðinni er löngu náð. Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn alls sanngjarns fólks en mig langar að biðja deiluaðila að hafa hér eftir hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Í Speglinum í Ríkisútvarpinu var í vikunni viðtal við einn fulltrúa kennara í samninganefnd sveitarfélaganna í kjölfarið á málefnalegri og beittri gagnrýni Hafsteins Karlssonar skólastjóra í Salaskóla í Kópavogi á vinnubrögð deiluaðila, sem vakið hefur mikla athygli. Í ummælum fulltrúans kom fram að ástæðan fyrir því að viðræðunefndir deiluaðila hefðu ekkert hist í allt sumar væri sú að svo mikið hefði skilið á milli. Það var fróðlegt svar. Það tók því ekki að tala saman því að svo mikið skildi á milli… Með leyfi: eru samningaviðræður þá ekki til að leita lausna? Af svarinu hlaut maður að ráða að stefnt hefði verið að verkfalli allar götur frá því í fyrra, samninganefndin hefði ekki talið um neitt að ræða fyrr en réttur "þrýstingur" væri farinn að skapast. Í sama viðtali var fulltrúinn úr samninganefndinni spurður um hinar langvinnu viðræður um svokallaða vinnutímatilhögun, hvers vegna í ósköpunum kennarar mættu ekki bara í vinnuna eins og annað fólk klukkan átta og væru til fjögur og fengju greitt í samræmi við það. Gerðu þá hitt og þetta þennan tíma en hættu að tæta viðfangsefni sín niður í flókna launaliði eins og nú virðist vera: ég á að fá þetta kaup fyrir að sitja fundi í x tíma á viku, þetta fyrir að kenna x tíma á viku, þetta fyrir að búa til glærur, þetta fyrir að semja próf... Ekkert benti til þess að viðmælandi Spegilsins skildi þann þankagang sem bjó að baki spurningunni um venjulega 40 stunda vinnuviku kennara eins og annarra. Ævintýri eru til í margvíslegum gerðum og sjálfur þekki ég svolítið aðra gerð af sögunni um Unga litla en Elín nefnir þótt sorglegur endirinn sé að vísu sá sami: Einu sinni fékk Ungi litli þá hugmynd að himinninn væri að hrynja og hann yrði að forða sér í skjól. Hann lagði af stað í leiðangur og fékk alla með sér sem hann hitti - það var prúð og samtaka fylking sem þrammaði beint inn í greni refsins. Ég hélt alltaf að mórall sögunnar væri að gera ekki of mikið veður út af hlutunum, reyna að temja sér raunsæi og að hóphugsun, múgæsing, geti leitt út í ógöngur og loks – sem ekki er síst um vert – að leggja ekki út í leiðangur án þess að vita hvernig hann muni enda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Mæt og virt baráttukona, kennari og fyrrum borgarfulltrúi, Elín G. Ólafsdóttir, skrifaði grein hér á dögunum þar sem hún lagði út af ævintýrinu um Unga litla sem hélt að himinninn væri að hrynja og lét skolla ginna sig inn í greni sitt með fyrirsjáanlegum endalokum. Skilaboð Elínar til kennara eru: standið saman, trúið ekki fagurgala lágfótu, allt sanngjarnt fólk styður ykkur. Sjálfur er ég væntanlega ekki í hópi þeirra sanngjörnu: frá fyrsta degi hef ég látið í ljós þá skoðun mína – kannski full eindregið stundum - að réttur barna til skólagöngu sé æðri rétti kennara til verkfalls, nema um algjöra neyð sé að ræða, og þá í mesta lagi í nokkra daga. Það að kenna börnum er ekki sambærilegt við að pakka inn vöru eða flaka fisk: maður notar ekki stál og hníf við kennslu, svo að vísað sé til söngs kennara í Garðabæ á baráttusamkomu. Í kennslu eru í húfi verðmæti sem ekki verða mæld í krónum og aurum og eru þar með ósegjanlega miklu mikilvægari en til dæmis þegar verkfall sjómanna skellur á: líf og þroski ungra manneskja. Umræðan um verkfallið hefur of mikið snúist um hagsmuni þeirra fullorðnu: vandræði foreldranna (sem ég er þó ekki að gera lítið úr), lítið svigrúm sveitarfélaganna, væntingar kennaranna. Allt bliknar þetta hjá því að börn eru svipt skólagöngu sinni: hægt er að vinna upp peningaskort og redda hlutum en börnin geta ekki endurheimt þann tíma í skólanum sem þau hafa misst. Þeir dagar eru liðnir og koma aldrei aftur. Harkan í þessu verkfalli er of mikil og hefur skaðað orðspor merkrar stéttar. Sagt er að kennarar séu ekki of sælir af launum sínum (hver sem þau eru: það munar næstum hundrað þúsund krónum á upplýsingum um þau eftir því hver talar) – látum svo vera, vitaskuld eiga kennarar að fá gott kaup: en það eitt og sér er bara ekki nógu góð ástæða til að fara í verkfall gagnvart börnum í fimm vikur. Endastöðinni er löngu náð. Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn alls sanngjarns fólks en mig langar að biðja deiluaðila að hafa hér eftir hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Í Speglinum í Ríkisútvarpinu var í vikunni viðtal við einn fulltrúa kennara í samninganefnd sveitarfélaganna í kjölfarið á málefnalegri og beittri gagnrýni Hafsteins Karlssonar skólastjóra í Salaskóla í Kópavogi á vinnubrögð deiluaðila, sem vakið hefur mikla athygli. Í ummælum fulltrúans kom fram að ástæðan fyrir því að viðræðunefndir deiluaðila hefðu ekkert hist í allt sumar væri sú að svo mikið hefði skilið á milli. Það var fróðlegt svar. Það tók því ekki að tala saman því að svo mikið skildi á milli… Með leyfi: eru samningaviðræður þá ekki til að leita lausna? Af svarinu hlaut maður að ráða að stefnt hefði verið að verkfalli allar götur frá því í fyrra, samninganefndin hefði ekki talið um neitt að ræða fyrr en réttur "þrýstingur" væri farinn að skapast. Í sama viðtali var fulltrúinn úr samninganefndinni spurður um hinar langvinnu viðræður um svokallaða vinnutímatilhögun, hvers vegna í ósköpunum kennarar mættu ekki bara í vinnuna eins og annað fólk klukkan átta og væru til fjögur og fengju greitt í samræmi við það. Gerðu þá hitt og þetta þennan tíma en hættu að tæta viðfangsefni sín niður í flókna launaliði eins og nú virðist vera: ég á að fá þetta kaup fyrir að sitja fundi í x tíma á viku, þetta fyrir að kenna x tíma á viku, þetta fyrir að búa til glærur, þetta fyrir að semja próf... Ekkert benti til þess að viðmælandi Spegilsins skildi þann þankagang sem bjó að baki spurningunni um venjulega 40 stunda vinnuviku kennara eins og annarra. Ævintýri eru til í margvíslegum gerðum og sjálfur þekki ég svolítið aðra gerð af sögunni um Unga litla en Elín nefnir þótt sorglegur endirinn sé að vísu sá sami: Einu sinni fékk Ungi litli þá hugmynd að himinninn væri að hrynja og hann yrði að forða sér í skjól. Hann lagði af stað í leiðangur og fékk alla með sér sem hann hitti - það var prúð og samtaka fylking sem þrammaði beint inn í greni refsins. Ég hélt alltaf að mórall sögunnar væri að gera ekki of mikið veður út af hlutunum, reyna að temja sér raunsæi og að hóphugsun, múgæsing, geti leitt út í ógöngur og loks – sem ekki er síst um vert – að leggja ekki út í leiðangur án þess að vita hvernig hann muni enda.