Karþagó 28. júní 2004 00:01 Félagi minn einn heldur því fram að ég hafi á sínum tíma verið andvígur Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal og tekið undir með Þjóðviljanum heitnum sem kallaði þessar framkvæmdir „Apagarð Davíðs.“ Félagi minn heldur því fram að ég hafi sagt að „þeir“ væru búnir að eyðileggja Laugardalinn…. Og hefur til marks um hvernig ég sem vinstri maður, sérvitringur, krónískur minnihlutamaður og úrtölumaður hafi alltaf rangt fyrir mér. Ég trúi honum ekki. Ég er að vísu með allra gleymnustu mönnum – ekki síst þegar glannalegar staðhæfingar mínar eru annars vegar – og ég hef mjög oft rangt fyrir mér, en mér finnst engu að síður eins og það geti ekki staðist að ég hafi verið andvígur þessum unaðsreit því að það stríðir gegn þrálátri umhugsun minni um þennan dal. Sem jaðrar við meinloku. Gagnvart Laugardalnum er ég næstum eins og maðurinn sem er alltaf í fjölmiðlum að tala um að hann sé aldrei í fjölmiðlum, hann Ástþór, hinn eilífi forsetaframbjóðandi - ég er beinlínis með þetta á heilanum: Laugardalurinn er mín Karþagó. Það rifjaðist upp fyrir mér í gærmorgun þegar ég sat við tölvuna og nennti ekki að tjá mig um þennan forsetaleik sem við höfum öll verið neydd til að taka þátt í að undanförnu, þar sem tveir menn fengu að lifa sig inn í draumfarir sínar um hæstu embætti sér til handa og fjölmiðlar spiluðu með, og furðu margir ómökuðu sig meira að segja á kjörstað til að kjósa, sem er til marks um styrk Ólafs Ragnars. Ég fór í staðinn að gá að því í tölvunni hvað ég hefði skrifað um fyrir ári síðan. Það var Karþagó, nema hvað. Og allt í einu varð mér jafn heitt í hamsi og endranær þegar ég leiði hugann að hernámi íþróttahreyfingarinnar á þessum stað þar sem ætti að vera stór skógur með íkornum, broddgöltum og íssölum, en ekki undirlagður af sex tómum fótboltavöllum og risahöllum fyrir fólk í íþróttum sem ósköp vel getur notast við þá ágætu aðstöðu sem íþróttafélögin hafa hvert í sínu hverfi. Ég rifjaði það upp í fyrra að Sigurður Guðmundsson málari, merkur frumkvöðull reykvískrar menningar, lét sig dreyma á 19. öld um að þegar Reykjavík yrði borg og Íslendingar þjóð í borg þá yrði Laugardalurinn fólksvangur, þar yrði gróðurreitur þar sem almenningur gæti unað sér. Á þeim tíma var Laugardalurinn sveit svo að framsýnin hefur verið ærin – og átti eftir að vera sveit lengi enn. Meira að segja þegar ég var að alast upp í Karfavoginum á sjöunda áratug síðustu aldar var í götunni minni fjós og hlaða og álfabyggð í klöpp sem sprengd var burt til að rýma fyrir fótboltavelli – nema hvað - þar sem ekki eitt einasta mark var skorað og allir meiddu sig á. Þetta var ekki sveit í borg. Vogarnir voru borg í sveit. Er hún orðin borg? Ég veit það ekki. Reykjavík er stundum eins og lauslegt bandalag gerólíkra þjóða um lágmarks samnytjar en að öðru leyti virðist fólk hafa minna samneyti en það vill eins og dæmin sanna þá sjaldan að tækifæri gefast til að stunda mannlíf úti undir beru lofti. Það vantar tengingar. Það vantar skjól. Það vantar vin þar sem ólukkans bílarnir eru hvergi nærri. Útivistarsvæðin virðast hér meira hugsuð sem tún eins og Hrafn Gunnlaugsson benti eftirminnilega á í ágætri mynd. Eigi að halda hátíð er okkur jafnan stefnt inn í miðbæ Reykjavíkur sem þjónar í raun illa því markmiði að fólk geti hist þar. Þar er þröngt og grátt og hann er úr leið fyrir flesta, það er leiðinlegt að finna þar bílastæði og þar er fátt að sjá og fátt við að vera. Reykvíkinga og nágranna vantar staði til að hittast á, flatmaga, sleikja ís, lesa, horfa, sjást. Í góðu veðri fer fólk á Austurvöll slíkra erinda en það takmarkaða pláss sem þar er virðist meira og minna frátekið af ölvuðu fólki. Laugardalurinn hefur allt: skjól, gróðursæld, vísi að skógi, þar ætti að vera ristastór miðgarður eins og er í raunverulegum borgum. Þá yrði loksins til langþráð tenging Austurbæjarins við miðborgina. Það er raunalegt að fylgjast með enn einu risaíþróttahúsinu rísa um þessar mundir á þessum besta stað í Reykjavík samhliða hinum óskiljanlegu framkvæmdum við Hringbraut. Það er löngu tímabært að borgaryfirvöld átti sig á því að almenningur leggur ekki stund á spjótkast eða þrístökk. Það er nóg að hafa eina íþrótta- og sýningar- og rokktónleikahölll í dalnum og líkamsræktarstöðin nýja í tengslum við laugina nægir sem vettvangur íþróttaiðkunar. Alla fótboltavellina má hins vegar leggja niður og planta þar trjám og öðrum gróðri svo að dalurinn verði skógi vaxinn allt frá Álfheimum til Laugavegs, fullur af litlum búðum í sætum húsum, íkornum, broddgöltum, skrýtnum pöddum, íssölum, lottósölum, blaðasölum... og fólki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun
Félagi minn einn heldur því fram að ég hafi á sínum tíma verið andvígur Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal og tekið undir með Þjóðviljanum heitnum sem kallaði þessar framkvæmdir „Apagarð Davíðs.“ Félagi minn heldur því fram að ég hafi sagt að „þeir“ væru búnir að eyðileggja Laugardalinn…. Og hefur til marks um hvernig ég sem vinstri maður, sérvitringur, krónískur minnihlutamaður og úrtölumaður hafi alltaf rangt fyrir mér. Ég trúi honum ekki. Ég er að vísu með allra gleymnustu mönnum – ekki síst þegar glannalegar staðhæfingar mínar eru annars vegar – og ég hef mjög oft rangt fyrir mér, en mér finnst engu að síður eins og það geti ekki staðist að ég hafi verið andvígur þessum unaðsreit því að það stríðir gegn þrálátri umhugsun minni um þennan dal. Sem jaðrar við meinloku. Gagnvart Laugardalnum er ég næstum eins og maðurinn sem er alltaf í fjölmiðlum að tala um að hann sé aldrei í fjölmiðlum, hann Ástþór, hinn eilífi forsetaframbjóðandi - ég er beinlínis með þetta á heilanum: Laugardalurinn er mín Karþagó. Það rifjaðist upp fyrir mér í gærmorgun þegar ég sat við tölvuna og nennti ekki að tjá mig um þennan forsetaleik sem við höfum öll verið neydd til að taka þátt í að undanförnu, þar sem tveir menn fengu að lifa sig inn í draumfarir sínar um hæstu embætti sér til handa og fjölmiðlar spiluðu með, og furðu margir ómökuðu sig meira að segja á kjörstað til að kjósa, sem er til marks um styrk Ólafs Ragnars. Ég fór í staðinn að gá að því í tölvunni hvað ég hefði skrifað um fyrir ári síðan. Það var Karþagó, nema hvað. Og allt í einu varð mér jafn heitt í hamsi og endranær þegar ég leiði hugann að hernámi íþróttahreyfingarinnar á þessum stað þar sem ætti að vera stór skógur með íkornum, broddgöltum og íssölum, en ekki undirlagður af sex tómum fótboltavöllum og risahöllum fyrir fólk í íþróttum sem ósköp vel getur notast við þá ágætu aðstöðu sem íþróttafélögin hafa hvert í sínu hverfi. Ég rifjaði það upp í fyrra að Sigurður Guðmundsson málari, merkur frumkvöðull reykvískrar menningar, lét sig dreyma á 19. öld um að þegar Reykjavík yrði borg og Íslendingar þjóð í borg þá yrði Laugardalurinn fólksvangur, þar yrði gróðurreitur þar sem almenningur gæti unað sér. Á þeim tíma var Laugardalurinn sveit svo að framsýnin hefur verið ærin – og átti eftir að vera sveit lengi enn. Meira að segja þegar ég var að alast upp í Karfavoginum á sjöunda áratug síðustu aldar var í götunni minni fjós og hlaða og álfabyggð í klöpp sem sprengd var burt til að rýma fyrir fótboltavelli – nema hvað - þar sem ekki eitt einasta mark var skorað og allir meiddu sig á. Þetta var ekki sveit í borg. Vogarnir voru borg í sveit. Er hún orðin borg? Ég veit það ekki. Reykjavík er stundum eins og lauslegt bandalag gerólíkra þjóða um lágmarks samnytjar en að öðru leyti virðist fólk hafa minna samneyti en það vill eins og dæmin sanna þá sjaldan að tækifæri gefast til að stunda mannlíf úti undir beru lofti. Það vantar tengingar. Það vantar skjól. Það vantar vin þar sem ólukkans bílarnir eru hvergi nærri. Útivistarsvæðin virðast hér meira hugsuð sem tún eins og Hrafn Gunnlaugsson benti eftirminnilega á í ágætri mynd. Eigi að halda hátíð er okkur jafnan stefnt inn í miðbæ Reykjavíkur sem þjónar í raun illa því markmiði að fólk geti hist þar. Þar er þröngt og grátt og hann er úr leið fyrir flesta, það er leiðinlegt að finna þar bílastæði og þar er fátt að sjá og fátt við að vera. Reykvíkinga og nágranna vantar staði til að hittast á, flatmaga, sleikja ís, lesa, horfa, sjást. Í góðu veðri fer fólk á Austurvöll slíkra erinda en það takmarkaða pláss sem þar er virðist meira og minna frátekið af ölvuðu fólki. Laugardalurinn hefur allt: skjól, gróðursæld, vísi að skógi, þar ætti að vera ristastór miðgarður eins og er í raunverulegum borgum. Þá yrði loksins til langþráð tenging Austurbæjarins við miðborgina. Það er raunalegt að fylgjast með enn einu risaíþróttahúsinu rísa um þessar mundir á þessum besta stað í Reykjavík samhliða hinum óskiljanlegu framkvæmdum við Hringbraut. Það er löngu tímabært að borgaryfirvöld átti sig á því að almenningur leggur ekki stund á spjótkast eða þrístökk. Það er nóg að hafa eina íþrótta- og sýningar- og rokktónleikahölll í dalnum og líkamsræktarstöðin nýja í tengslum við laugina nægir sem vettvangur íþróttaiðkunar. Alla fótboltavellina má hins vegar leggja niður og planta þar trjám og öðrum gróðri svo að dalurinn verði skógi vaxinn allt frá Álfheimum til Laugavegs, fullur af litlum búðum í sætum húsum, íkornum, broddgöltum, skrýtnum pöddum, íssölum, lottósölum, blaðasölum... og fólki.