Adam Haukur Baumruk átti frábæran leik þegar Haukar töpuðu, 41-42, fyrir Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í gær.
Adam skoraði hvorki fleiri né færri en 15 mörk í leiknum, flest með þrumuskotum utan af velli. Það tók þessa öflugu skyttu reyndar smá tíma að stilla miðið en fimm af sex fyrstu skotum Adams geiguðu.
Adam nýtti hins vegar 14 af 19 skotum sínum eftir þessa erfiðu byrjun og endaði með 60% skotnýtingu sem er afbragðsgóð nýting fyrir skyttu.
Með mörkunum 15 í leiknum í gær sló Adam 24 ára gamalt markamet Sigurðar Sveinssonar í lokaúrslitum.
Siggi Sveins skoraði 14 mörk, þar af tvö af vítalínunni, þegar Selfoss vann þriggja marka sigur, 30-27, á FH í öðrum leik liðanna í lokaúrslitunum 1992, en það var fyrsta árið sem úrslitakeppnin fór fram með útsláttarfyrirkomulagi.
Siggi skoraði alls 33 mörk í úrslitunum fyrir 24 árum þar sem Selfyssingar biðu lægri hlut fyrir FH, 3-1.
Adam er þegar kominn með 27 mörk í úrslitaeinvíginu í ár. Hann skoraði 10 mörk í fyrsta leiknum en svo aðeins tvö í öðrum leiknum í Mosfellsbæ. Haukar fara þangað aftur á mánudaginn og þurfa að vinna til að tryggja sér oddaleik á fimmtudaginn.
Flest mörk í einum leik í lokaúrslitum:
15 - Adam Haukur Baumruk (Haukum) í leik 3 gegn Aftureldingu 2016
14/2 - Sigurður Sveinsson (Selfoss) í leik 2 gegn FH 1992
13/1 - Agnar Smári Jónsson (ÍBV) í leik 5 gegn Haukum 2014
13/7 - Róbert Julian Duranona (KA) í leik 2 gegn Val 1996
13/9 - Valdimar Grímsson (KA) í leik 1 gegn Val 1995
12 - Ásgeir Örn Hallgrímsson (Haukum) í leik 2 gegn ÍBV 2005
12/2 - Oddur Gretarsson (Akureyri) í leik 2 gegn FH 2011
12/3 - Fannar Þór Friðgeirsson (Val) í leik 4 gegn Haukum 2010
12/3 - Sigurbergur Sveinsson (Haukum) í leik 5 gegn ÍBV 2014
12/5 - Róbert Julian Duranona (KA) í leik 2 gegn Aftureldingu 1997
12/6 - Jón Andri Finnsson (Afturelding) í leik 1 gegn FH 1999
