Fótbolti

Davíð Snorri nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Davíð Snorri hefur þjálfað íslenska U-21 árs landsliðið síðan 2019.
Davíð Snorri hefur þjálfað íslenska U-21 árs landsliðið síðan 2019. Vísir/Sigurjón

Davíð Snorri Jónasson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla í fótbolta í stað Jóhannes Karls Guðjónssonar. Davíð hefur þjálfað yngri landslið Íslands undanfarin ár, nú nýlegast u21 árs landsliðið. 

Jóhannes Karl lét af störfum fyrir viku síðan til að taka við þjálfun Akademisk Boldklub (AB), sem spilar í þriðju efstu deild Danmerkur.

KSÍ tilkynnti um svo um ráðningu Davíðs í morgun. Leit að nýjum þjálfara u21 árs landsliðsins er þegar farin af stað.

Næstu leikir Íslands eru vináttuleikir gegn Englandi og Hollandi, dagana 7. og 10. júní. 

Hópurinn fyrir það verkefni verður kynntur á rafrænum blaðamannafundi Age Hareide rétt fyrir hádegi í dag. 

Í tilkynningu KSÍ segir: 

Davíð Snorri, sem er fæddur árið 1987 og hefur lokið KSÍ Pro gráðu, þjálfaði Leikni R. ásamt Frey Alexanderssyni árin 2013-2015 og komu þeir liðinu í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu þess árið 2015. Davíð þjálfaði U17 landslið karla árin 2018 til 2020 og fór m.a. með liðið alla leið í lokakeppni EM 2019, áður en hann tók við stjórnartaumunum hjá U21 landsliði karla í byrjun árs 2021 og hans fyrsta verkefni með liðinu var úrslitakeppni EM í Ungverjalandi það ár. Hann hefur þjálfað U21 liðið síðan þá við góðan orðstír og fór m.a. með liðið í umspil um sæti í lokakeppni EM 2023, en færir sig nú um set yfir til A landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×