Fótbolti

Sádar segja að meira en sjö­tíu þjóðir styðji það að þeir haldi HM 2034

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er heitt í Sádí Arabíu ekki síst yfir sumartímann. Cristiano Ronaldo reynir að kæla sig niður í leik með Al-Nassr.
Það er heitt í Sádí Arabíu ekki síst yfir sumartímann. Cristiano Ronaldo reynir að kæla sig niður í leik með Al-Nassr. Getty/MB Media

Flest bendir til þess að annað heimsmeistaramót á rúmum áratug verði haldið í hitanum á Arabíuskaganum sem þýðir væntanlega að heimsmeistaramótið verði aftur fært inn á veturinn eins og fyrir tæpu ári síðan.

HM fór fram í Katar 2022 og fór fram í nóvember og desember. Nú segja Sádi Arabar að þeir hafi mikinn stuðning á bak við sig að fá að halda HM 2034 í Sádí Arabíu.

„Í síðustu viku tilkynntum við um metnað okkar að fá að halda heimsmeistaramóti FIFA árið 2034. Nú tökum við annað skref og tilkynnum formlega um framboð okkar og ætlum að láta drauma okkar fólks rætast,“ sagði Yasser Al Misehal, forseti Knattspyrnusambands Sádí Arabíu, í yfirlýsingu.

„Við erum algjörlega staðráðnir að koma með besta framboðið sem mun einnig hjálpa til við að að sameina heiminn í gegnum fótboltann,“ sagði Al Misehal.

Hittinn er mikill í Sádí Arabíu yfir sumarið alveg eins og í Katar. Það er því nánast ómögulegt að halda HM á eðlilegum tíma eigi það að fara fram í Sádí Arabíu. Keppnin í Katar er aftur á móti fordæmi fyrir því að færa HM inn á veturinn kalli aðstæðir í gestgjafalandinu á það.

Knattspyrnusamband Sádí Arabíu sagði enn fremur að meira en sjötíu meðlimaþjóðir FIFA, frá öllum heimsálfunum, hafi opinberlega lofað þeim stuðningi.

Í síðustu viku var ákveðið að HM 2030 fari fram í Marokkó, á Spáni og í Portúgal en opnunarleikir mótsins fara þó fram í Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ til heiðurs hundrað ára afmælis keppninnar.

Ástralía hefur einnig sýnt því áhuga að halda keppnina 2034 en það er ljóst að hún mun fara fram í Asíu eða Eyjaálfu. Ástralar voru ekki sáttir við að Knattspyrnusamband Asíu hafi þegar ákveðið að styðja Sádana en ekki þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×