Fótbolti

Cazorla semur við uppeldisfélagið og heimtar lágmarkslaun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Santi Cazorla er líklega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal.
Santi Cazorla er líklega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal. David Price/Arsenal FC via Getty Images

Hinn 38 ára gamli Santi Cazorla er genginn í raðir spænska B-deildarfélagsins Real Oviedo. Cazorla ólst upp hjá félaginu, en lék aldrei meistaraflokksleik fyrir liðið.

Cazorla, sem er líklega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal, fór í gegnum unglingastarf Real Oviedo áður en hann samdi við Villarreal aðeins 18 ára gamall.

Síðan þá hefur hann leikið með liðum á borð við Recreativo Huelva og Málaga auk Villarreal og Arsenal. Á tíma sínum hjá Arsenal lék hann 129 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skoraði 25 mörk. Þá á hann einnig að baki 81 leik og 15 mörk fyrir spænska landsliðið.

Cazorla var hins vegar síðast á mála hjá Al-Sadd í Katar þar sem hann lék í þrjú ár. Nú er hann genginn aftur í raðir uppeldisfélagsins og virðist hann ekki hafa neinn áhuga á því að koma liðinu í nein peningavandræði.

Cazorla mun þéna lágmarkslaun á meðan hann leikur fyrir liðið og þá mun tíu prósent af treyjusölum í hans nafni renna til unglingastarfs félagsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Cazorla gerir eitthvað fyrir uppeldisfélag sitt því árið 2012 fjárfesti hann í hlutabréfum félagsins til að koma í veg fyrir að það færi á hausinn eftir að upp komst um peningavandræði þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×