Fótbolti

Luis Suarez neitar að biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez varði með höndum á marklínu og var síðan fagnað eins og þjóðhetju eftir leikinn.
Luis Suarez varði með höndum á marklínu og var síðan fagnað eins og þjóðhetju eftir leikinn. Samsett/Getty

Úrúgvæ og Gana mætast annað kvöld í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar þar sem sæti í sextán liða úrslitunum er í boði.

Athyglin er auðvitað mikil á Luis Suarez, framherja Úrúgvæ, þökk sé því sem gerðist þegar þjóðirnar mættust síðast á heimsmeistaramóti fyrir tólf árum.

Suarez þótti þar sýna mjög ódrengilega framkomu með því að verja boltann á marklínu með hendinni. Gana fékk víti og Suarez fékk rautt spjald en hann fékk samt aukaskammir af því að Asamoah Gyan klikkaði á vítinu.

Atvikið gerðist á lokamínútu framlengingarinnar þegar staðan var 1-1. Úrslitin réðust í vítakeppni sem Úrúgvæ vann 4-2.

Blaðamaður frá Gana rifjaði upp atvikið á blaðamannafundi fyrir leikinn með því að segja að Ganverjar líti á Luis Suarez sem djöfulinn og að þeir vilji enda landsliðsferil hans í þessum leik.

„Ég þarf ekki að biðjast afsökunar á neinu. Ég notaði hendina en það var leikmaður Gana sem klikkaði á vítinu en ekki ég,“ sagði Luis Suarez.

„Ég gæti beðist afsökunar ef ég hefði meitt leikmann í tæklingu og fengið rautt spjald vegna þess en í þessari stöðu þá fékk ég rautt spjald og dómarinn dæmdi víti,“ sagði Suarez.

„Það er ekki mér að kenna því ekki klikkaði ég á vítinu. Leikmaðurinn sem klikkaði á vítinu sagði líka að henn hefði gert það sama í minni stöðu. Ég ber ekki ábyrgð á því hvernig þetta fór,“ sagði Suarez.

Úrúgvæ og Gana geta ekki bæði komist áfram upp úr riðlinum. Gana er í betri stöðu með þrjú stig á móti einu stigi hjá Úrúgvæ. Portúgal er með sex stig og þegar komið áfram en mætir Suður-Kóreu sem er með eitt stig eins og Úrúgvæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×