Atvinnulíf

Í rekstur „með mömmu sem er alltaf til í allt“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Mæðgur í Verzlunarhöllinni, fv.: Þórdís og Sveindís Þórhallsdætur og Vilborg Norðdahl.
Mæðgur í Verzlunarhöllinni, fv.: Þórdís og Sveindís Þórhallsdætur og Vilborg Norðdahl. Vísir/Vilhelm

„Aldursmunur dætranna hefur gert það að verkum að þær hafa ekki gert allt of mikið saman um ævina og þegar þessi hugmynd kom upp í huga okkar ákváðum við að með þessu væri hægt að eiga sameiginlegt markmið til að stefna að með mömmu sem er alltaf til í allt,“ segir Vilborg Norðdahl sem skömmu fyrir síðustu jól hóf rekstur með tveimur dætrum sínum undir nafninu Verzlanahöllin að Laugavegi 26.

Eldri dóttirin er Þórdís V. Þórhallsdóttir, fædd árið 1979, viðskiptafræðingur, kennari og MPM. Yngri dóttirin er Sveindís A. V. Þórhallsdóttir, fædd árið 1991, sálfræðingur og íþróttasálfræðingur að mennt. „Engin okkar missti vinnu vegna Covid og við höfum enga reynslu í neinum rekstri,“ segir Þórdís.

Farið af stað

Mæðgurnar opnuðu Verzlanahöllina þann 16. desember síðastliðinn. Í Verzlanahöllinni eru leigðir út sölubásar fyrir fólk sem selur þar notaðan fatnað og hluti.

„Við höfðum velt fyrir okkur í langan tíma að fara út í rekstur saman. Sameiginlegt áhugamál okkar er nýting, endurnýting og umhverfisvernd, sem við höfum nálgast á ólíkan hátt. Það var því tilvalið að sameina þennan áhuga í svona rekstur,“ segir Vilborg.

„Við erum ekki fyrsta svona fyrirtækið, en okkar sérstaða er að við leigjum út bása fyrir fullorðinsfatnað og barnafatnað og svo leigjum við líka út bása fyrir smærri hluti, svo sem raftæki, skrautmuni og fleira á sama staðnum. Þannig að viðskiptavinirnir þurfa ekki að leita lengra ef þá vantar eitthvað svona til heimilisins,“ segir Þórdís og bætir við að þessi þjónusta auki einnig á fjölbreytni miðborgarinnar því þar er engin sambærileg verslun.

En hvernig hafið þið fjármagnað nýjan fyrirtækjarekstur?

Fjármögnunin kom úr eigin vösum, bankalán, yfirdráttur, vinnuframlag án launa og vinnuframlag stórfjölskyldunnar án launa,“ 

segir Sveindís.

Það fylgja ýmsar áskoranir því að vera í nýjum rekstri en álagið er gefandi því mæðgurnar brenna allar fyrir endurnýtingu og minni sóun, sem er kjarnastarfsemi Verzlanahallarinnar.Vísir/Vilhelm

Áskoranir og álag

Viðtökur hafa verið góðar frá opnun en mæðgurnar viðurkenna að í mörg horn er að líta og að oft er unnið dag og nótt. 

Viðveran þeirra þarf að vera mjög mikil, það þarf að afgreiða viðskiptavini, aðstoða leigjendur við að setja upp básana sína, þrífa rýmin, svo ekki sé talað um að huga að markaðssetningu. Þar ganga mæðgurnar sjálfar í allt. Taka myndir af vörum og birta á samfélagsmiðlum, svara skilaboðum. Síðast en ekki síst þarf að hugsa um fjármálin.

„Þegar að við erum síðan komnar heim á kvöldin þarf að borga þeim leigjendum söluhagnað þegar þeir eru farnir, útbúa auglýsingar sem við hönnum sjálfar,“ segir Sveindís og bætir við: „Svo höldum við áfram að tala saman og skipuleggja ýmislegt á Messenger og síðan dreymir okkur fyrirtækið á nóttunni.“

Eins og áður sagði hefur engin mæðgnanna reynslu af rekstri en móðirin, Vilborg, starfaði sjálf við skrifstofustörf í 45 ár. Hún viðurkennir að auðvitað felist í því áskorun að þrjár mæðgur starfi svona náið saman. Ekki síst vegna þess að aldursmunurinn er mikill.

Við erum þrjár af þremur kynslóðum og við höfum kannski bara þurft að passa upp á hverja aðra vegna álags. Sem gengur ekkert alltof vel, enda í mörg horn að líta svona í upphafi rekstrar.“

Vilborg hefur unnið við skrifstofustörf síðastliðin 45 ár en ákvað fyrir jólin að söðla um og skella sér í verslunarrekstur með dætrum sínum.Vísir/Vilhelm

Ástríðan

Mæðgurnar segja álagið þó einnig gefandi og skemmtilegt. Þær leggi til dæmis mikla áherslu á að skapa þægilegt og afslappað andrúmsloft, með rólegri tónlist og persónulegri þjónustu í hreinu og góðu verslunarhúsi. Að fá þakkir eða hrós frá viðskiptavinum sé gefandi því það staðfesti við þær að árangur erfiðisins sé til staðar.

Þá segja þær það vega upp á móti öllu álagi að ástríðan þeirra felist í endurnýtingu, minni sóun og umhverfisvernd.

Sjálfar endurnýtum við eins og kostur er. Til dæmis er allt innanstokks endurnýtt frá öðrum nema auðvitað sjálfir básarnir. 

Við látum ekki framleiða fyrir okkur poka eða merkispjöld heldur auglýsum við eftir og fáum gefins poka frá nágrönnum og viðskiptavinum. 

Merkispjöldin eru Cheeriospakkar og annar pappír sem við klippum niður og færi annars beint í ruslið,“ 

segir Þórdís.

Og meira að segja nafnið er endurnýtt því á áttunda áratugnum var þar starfrækt magasín eins og þá var kallað. Í húsnæðinu voru þá ellefu verslanir, til dæmis Ólympía nærföt, Tékk Kristall og fleiri fyrirtæki.

„Nú eru reknar þarna 154 verslanir ef svo má segja því að sölubásarnir eru 154,“ segir Sveindís. Allar verslanirnar séu hringrásarverslanir enda sé það sameiginlegt markmið þeirra mæðgna að hvetja sem flesta til að taka þátt í því markmiði að endurnýta meira og sóa minna.

Margir muna eflaust eftir Verzlanahöllinni sem lengi var starfrækt í sama húsnæði og þá sem magasín. Nú er nafnið endurvakið til að selja notaða hluti frá fólki sem setur upp sölubása hjá þeim mæðgum.

Tengdar fréttir

Uppskera ævintýralegan vöxt eftir margra ára baráttu og áföll

„Í flestum tilfellum eru peningarnir horfnir um leið og það er búið að millifæra þá, en þó eru til undantekningar. Til dæmis var eitt tilfelli þar sem íslenskt fyrirtæki tapaði hundruðum milljóna en endurheimti stóran hluta peninganna vegna þess að glæpamennirnir gátu ekki tekið þá nógu hratt út heldu aðeins með lágum upphæðum í einu. En þetta er erfiðara vegna þess að lögregluyfirvöld hafa ekki bolmagn til að rannsaka nema stærstu málin,“ segir Ragnar Sigurðsson stofnandi og framkvæmdastjóri AwareGo öryggisvitundar. 

Rakst á auglýsingu á Facebook sem breytti öllu

„Það erfiðasta við að vera atvinnulaus og vilja virkilega fara aftur út á atvinnumarkaðinn er að fá endalaust neitanir. Síðan fylgir oft svörunum að svo svakalega margir, eða þrjú hundruð manns, hafi verið að sækja um sömu stöðu og ég,“ segir Thelma Sjöfn Hannesdóttir, rafvirki og þriggja barna móðir á Akranesi sem nú er að læra kerfisstjórn.

Eftir tíu ára starf fær Ísland 5,5 í einkunn

„Niðurstaðan var sú, að í samanburði við lönd sem við gjarnan berum okkur saman við, fær Ísland 5,5 í einkunn. Við rétt náum,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu um niðurstöður könnunar sem gerð var meðal allra formanna, varaformanna og framkvæmdastjóra Festu til dagsins í dag og fulltrúa þeirra sex fyrirtækja sem stofnuðu Festu árið 2011.

Stakk upp á nýju starfi fyrir sjálfa sig og endaði sem framkvæmdastjóri

„Ég myndi án efa hvetja fólk til þess að bera sig eftir því sem það vill, að hugsa aðeins hvað það virkilega langar að vinna við og yrði frábært í og hreinlega taka stöðuna. Það er þá ekkert verra en „Nei“ sem kemur, sem gæti svo alveg breyst í „Já“ síðar eins og það gerði hjá mér,“ segir Klara Símonardóttir aðspurð um það hvaða ráð hún myndi gefa fólki í atvinnuleit. Klara er í dag framkvæmdastjóri Petmark. Árið 2016 hafði hún samband við það fyrirtæki og stakk upp á því að hún yrði ráðin sem vörumerkjastjóri. Starfið var ekki til hjá fyrirtækinu og þaðan af síður hafði það verið auglýst. En í kjölfar þess að Klara hafði samband, var starfið búið til og hún ráðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×