Viðskipti erlent

Nýtt stýrikerfi eftir tvö ár

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft ætlar að setja nýtt stýrikerfi á markað eftir tæp tvö ár. Þetta sagði Ben Fathi, einn af framkvæmdastjórum þróunardeildar Microsoft, á ráðstefnu um tölvumál í San Francisco í Bandaríkjunum um síðustu helgi.

Windows Vista, nýjasta stýrikerfið frá hugbúnaðarrisanum kom á markað í lok síðasta mánaðar. Um sex ár liðu á milli nýrra stýrikerfa frá Microsoft en Windows XP kom á markað árið 2001. Allt frá þeim tíma birtust fréttir annað slagið þar sem var sagt að von væri á nýju stýrikerfi frá fyrirtækinu.

Vinnuheiti þess var Longhorn en ekkert bólaði á útgáfunni. Fathi sagði Microsoft hafa getað sett nýtt stýrikerfi á markað miklu fyrr. Helsta ástæðan fyrir því hafi verið tíðir tölvuormar sem herjuðu á nettengdar tölvur árið 2003 sem leiddu til þess að menn hjá Microsoft hefðu ákveðið að snúa sér að veiruvörnum í auknum mæli. Því hafi áherslan verið lögð á stóra uppfærslupakkann fyrir Windows XP, sem kom út í ágúst fyrir tveimur og hálfu ári.

„Gróflega talið líða tvö til tvö og hálft ár þar til nýtt stýrikerfi verður nauðsynlegt," sagði Fathi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×