Viðskipti innlent

Hrönn, Viktor og Þór­dís til Varðar

Jón Þór Stefánsson skrifar
VIktor Hrafn, Hrönn og Þórdís.
VIktor Hrafn, Hrönn og Þórdís. Vörður

Tryggingafélagið Vörður hefur ráðið þrjá nýja forstöðumenn. Það eru Hrönn Vilhjálmsdóttir, Viktor Hrafn Hólmgeirsson, og Þórdís Lind Leiva.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði þar sem þríeykið er kynnt.

Hrönn Vilhjálmsdóttir, er nýr forstöðumaður eignatjóna. Hún lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2021, auk þess að hafa áður lokið námi í bæði BA lögfræði og BSc í fjármálaverkfræði við sama skóla. Hrönn hefur starfsreynslu í tryggingum en hún starfaði hjá Sjóvá í fimm ár í fjölbreyttum verkefnum.

Viktor Hrafn Hólmgeirsson, er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og lögmannsréttindi. Hann hefur starfað hjá Verði frá því hann lauk námi, bæði við lögfræðiráðgjöf en einnig sem teymisstjóri á tjónasviði. Viktor hefur tekið við nýju starfi sem forstöðumaður persónu- og ferðatjóna.

Þórdís Lind Leiva tók nýverið við stöðu forstöðumanns líf- og heilsutrygginga hjá Verði. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa lokið BS í viðskiptafræði frá sama skóla. Hún kemur til Varðar frá N1 þar sem hún var starfaði síðast sem forstöðumaður á orkusviði. Áður starfaði Þórdís Lind hjá Sjóvá sem verkefnisstjóri sölumála og persónutrygginga.

„Tryggingar eru mikilvægar fyrir samfélagið og við viljum halda áfram að efla þjónustu við okkar viðskiptavini. Framundan eru spennandi verkefni og leggjum við hjá Verði ríka áherslu á laða til okkar öfluga einstaklinga sem brenna fyrir því að þróa og efla tryggingar. Ráðning nýrra forstöðumanna mun styrkja teymi Varðar enn frekar og býð ég þau hjartanlega velkomin í hópinn okkar“ er haft eftir Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, forstjóra Varðar trygginga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×